Välj språk här Välj språk här

Hálf pappírsörk

Översatt och inläst av modersmålsläraren Hellen Condit, hellen.condit@stockholm.se

Síðasti farmurinn af búslóðinni var farinn; leigjandinn, ungur maður með sorgarblæju í hattinum, ráfaði eina ferðina enn í gegnum íbúðina, til þess að athuga hvort hann hefði gleymt einhverju. – Nei, hann hafði ekki gleymt neinu, ábyggilega engu; og svo gekk hann út í forstofuna, ákveðinn í að aldrei aftur hugsa um atburðina sem hann upplifði í íbúðinni. En sjá, í forstofunni, við hliðina á símanum, hékk á veggnum hálf pappírsörk, fest á nagla. Örkin var þéttskrifuð í blönduðum stíl, sumt skýrlega skrifað með bleki, annað krotað með blýanti eða með rauðum penna.  Þarna stóð öll hin fagra saga, sem skapaðist á bara tveimur árum; allt sem hann vildi gleyma stóð þarna; heil mannsæfi á hálfri pappírsörk.

Hann tók niður örkina; þetta var lýsandi pappírsörk, gulnuð af sól. Hann lagði hana á hillu stofuofnsins, og niðurlútur las hann.  Efst stóð nafn hennar: Alice, hið fegursta nafn sem hann þekkti þá, af því að það var nafn unnustu hans.  Og númerið —  15 11.  Það leit út eins og sálmanúmer í kirkjunni.  Þar fyrir neðan stóð: Bankinn.  Það var atvinna hans, hin heilaga atvinna, sem veitti brauðið, heimilið og makann, grundvöll tilverunnar.  En það var þakið kroti!  Því bankinn hafði farið á hausinn, en annar banki bjargaði honum, eftir stutt tímabil af mikilli angist.

Svo kom það.  Blómabúðin og leiguvagninn.  Það var trúlofunin, þegar hann hafði vasana fulla af peningum.

Síðan: húsgagnasalinn, veggfóðrarinn: hann stofnar heimili.  Flutningafyrirtækið: þau flytja inn.

Miðasala Óperunnar: 50 50.  Þau eru nýgift og fara í Óperuna á sunnudögum.  Þeirra bestu stundir, þegar þau sitja þögul, og mætast í fegurð og samkennd í sögulandinu, handan við tjaldið.

Hér stendur karlmannsnafn, sem er yfirstrikað.  Það er vinur, sem hafði náð langt í þjóðfélaginu, en gat ekki borið gæfuna, heldur féll óstöðvandi og hvarf á braut.  Svo fallvölt er gæfan!

Hér sést einhver nýr atburður í lífi þeirra hjóna.  Það er skrifað með kvenlegri rithönd, og með blýanti: „Frúin.“  Hvaða frú?  — Jú, þessi í stóru kápunni með vinsamlega og

samúðarfulla andlitið.  Hún sem er svo þögul, og gengur aldrei í gegnum stofuna, heldur laumast frá forstofunni inn í svefnherbergið.

Undir nafni hennar stendur Doktor L.

Í fyrsta skipti birtist hér nafn ættingja.  Það stendur „Mamma.“  Það er tengdamamma, sem þögul hélt sér í fjarlægð til þess að trufla ekki hin nýgiftu, en sem nú er kölluð á neyðarstund, og kemur með gleði, þar sem hennar er þörf.

Hér hefst mikið hrafnaspark í bláu og rauðu.  Atvinnumiðlunin: vinnukonan er flutt, eða á að ráða nýja.  Apótekið.  Hm! Það dimmir!  Mjólkursamsalan.  Hér er pöntuð mjólk, án berkla.

Kryddbúðin, slátrarinn o.s.frv.  Heimilinu er stjórnað gegnum síma: þá er húsmóðirin ekki til staðar. Nei.  Því hún er rúmliggjandi.

Næstu málsgrein gat hann ekki lesið, því honum sortnaði fyrir augum, eins og drukknandi manni í sjó, þegar hann reynir að sjá í gegnum salt vatn.  En þar stóð:  Útfararstofnunin.  Það segir sig sjálft! —   Ein stór og önnur minni, undirskilið: kista.  Og innan sviga stóð: jarðneskar leifar.

Svo stóð ekki meira!  Því lauk með jarðneskum leifum; og þannig er það.

En hann tók sólarörkina, kyssti hana og setti í brjóstvasann.

Á tveimur mínútum endurupplifði hann tvö ár af lífi sínu.

Hann var ekki beygður þegar hann gekk út.  Þvert á móti bar hann höfuðið hátt, eins og hamingjusöm, stolt manneskja, af því að hann vissi að hann hafði átt hið fegursta.  Svo margir vesalingar, sem hafa  aldrei fengið að eiga það!

Download